Kökuskreytingar, strandblak og frjálsar voru lang vinsælustu greinarnar á Unglingalandsmótinu á Selfossi um helgina. Um 250 ungmenni tóku þátt í keppni um bestu og fallegustu kökuskreytinguna en keppnin fór fram í íþróttahúsinu Iðu frá klukkan 16:00 til 18:00 í dag.
„Krakkarnir fengu kökubotn og krem, sem strákarnir í GK bakarí á Selfossi voru búnir að græja og eins gátu þau líka fengið hjá okkur kökuskraut eða tekið með sér að heiman,“ segir Guðbjörg Rósa Björnsdóttir, sérgreinastjóri yfir kökuskreytingum landsmótsins
Hvernig skýrir þú þennan mikla áhuga á þessari keppni?
„Ég veit það ekki, ég hélt að þetta væri bara einhver djók grein og þess vegna tók ég þetta að mér, ég veit ekki af hverju það er svona mikill áhugi fyrir þessu.“

Mikil spenna og ánægja var á meðal keppenda.
Hvernig köku ætlið þið að gera? „Eldfjalla og flugelda, við ætlum bara að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín, við erum báðar mjög góðar að baka,“ sögðu vinkonurnar Þórey Mjöll Guðmundsdóttir og Bára Ingibjörg Leifsdóttir, sem kepptu báðar í kökuskreytingum en þær búa á Selfossi.

Unglingalandsmótinu lýkur svo formlega í kvöld með glæsilegri flugeldasýningu klukkan 23:45. Mótið tókst einstaklega vel þar sem veðurguðirnir sýndu sínar bestu hliðar fyrir landsmótsgesti.
