Fótbolti

Özil kemur ekki í Kópavoginn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mesut Özil kemur ekki með Istanbul Basaksehir til Íslands.
Mesut Özil kemur ekki með Istanbul Basaksehir til Íslands. Heimasíða Basaksehir

Fyrrum heimsmeistarinn Mesut Özil mætir ekki með Istanbul Basaksehir til Íslands. Hann glímir við meiðsli.

Özil samdi nýverið við Basaksehir frá Fenerbahce í Tyrklandi. Hann lék áður við góðan orðstír með Arsenal á Englandi og Real Madrid á Spáni. Hann vann þá HM með þýska landsliðinu árið 2014.

Margir voru spenntir fyrir að bera hann augum á Kópavogsvelli þegar Breiðablik tekur á móti Basaksehir í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudagskvöld. Hann er hins vegar meiddur og býst Emre Belözoglu, þjálfari Basaksehir, ekki við að hann snúi aftur á völlinn fyrr en í næsta mánuði.

Leikur Breiðabliks og Istanbul Basaksehir fer fram klukkan 18:45 á fimmtudagskvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×