Fótbolti

Vann allt sem leik­maður norska lands­liðsins og er nú tekin við sem þjálfari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hege Riise frá tíma sínum sem þjálfari enska landsliðsins.
Hege Riise frá tíma sínum sem þjálfari enska landsliðsins. Getty/Lynne Cameron

Hege Riise verður næsti þjálfari norska kvennalandsliðsins í fótbolta en þetta tilkynnti norska knattspyrnusambandið í dag.

Riise tekur við starfinu af Martin Sjögren sem var látinn fara eftir EM kvenna þar sem norska liðið tapaði meðal annars 8-0 á móti verðandi Evrópumeisturum Englands.

Riise er 53 ára gömul og er ein besta knattspyrnukonan í sögu Noregs. Hún hefur þjálfað landslið áður því hún stýrði enska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó á síðasta ári.

Riise gerði líka Lilleström fjórum sinnum að norskum meisturum frá 2016 til 2019.

Riise átti sjálf frábæran feril en hún lék 188 landsleiki fyrir Noreg og var bæði kosin besti leikmaðurinn á EM 1993 og á HM 1995.

Riise vann alla þrjá stóru titlana með norska landsliðinu því hún varð Evrópumeistari 1993, heimsmeistari 1995 og svo Ólympíumeistari 2000 auk þess að fá Ólympíubrons árið 1996.

„Að fá að leiða norska A-landsliðið er það besta í boði og ég er bæði stolt og ánægð að vera treyst fyrir þessi starfi. Ég hlakka mikið til að takast á við þessa ábyrgð,“ sagði Hege Riise í fréttatilkynningu.

„Við erum stolt af því að geta kynnt nýjan þjálfara norska landsliðsins sem getur sýnt fram á frábæran árangur sem bæði leikmaður og þjálfari. Hún þekkir betur en allir hvað þarf til á þessu stigi, sagði Lise Kalveness, forseti norska knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×