Selenskí sagði í daglegu ávarpi sínu að stjórnvöld í Kænugarði hefðu ekki í hyggju að gefa eftir landsvæði til að ná samkomulagi við Rússa; Úkraínumenn myndu ekki gefa neitt frá sér sem þeir ættu með réttu. Forsetinn sagði Rússa myndu loka á alla möguleika á samningaviðræðum ef þeir héldu áfram á þeirri vegferð sem þeir hefðu lagt upp í, með hótunum um að innlima svæði í austur- og suðurhluta landsins.
Dmitry Medvedev, sem var forseti Rússlands þegar Rússar réðust inn í Georgíu árið 2008, sagði í viðtali við Tass í dag að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu væru hörð en ígrunduð viðbrögð við aggressívri Rússafóbíu Bandaríkjanna og Vesturlanda. Hann sagði fýsilegt að leysa pólítískar deilur við samningaborðið en yfirvöld í Úkraínu og Georgíu hefðu stillt Rússum upp við vegg.
Medvedev, sem hefur verið einna harðorðastur rússneskra ráðamanna í garð bandamanna, líkti Atlantshafsbandalaginu við illkynja æxli, sem breiddi úr sér meðfram landamærum Rússlands og væri orðið alþjóðlegt mein. Sagði hann engan ónæman fyrir sjúkdómnum.