Innlent

Úkraínskir krakkar lærðu fót­bolta og eignuðust nýja vini hjá Þrótti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hluti af úkraínsku krökkunum sem lærði fótbolta hjá Þrótti í liðinni viku.
Hluti af úkraínsku krökkunum sem lærði fótbolta hjá Þrótti í liðinni viku. Vísir/Einar

Úkraínskir krakkar nutu velvildar Þróttara í liðinni viku þegar þeim var boðið að sækja fótboltanámskeið. Það voru Úkraínumennirnir Konstiantyn Iaroshenko og Konstiantyn Pikul, leikmenn Þróttar, sem leiðbeindu krökkunum sem sumir höfðu aldrei spilað fótbolta áður.

„Þetta fótboltanámskeið hefur hjálpað mér mikið. Það er mjög gott. Ég hef aldrei spilað fótbolta áður en mig hefur alltaf langað til þess. Heima hafði ég ekki nauðsynlegan búnað en nú langar mig mikið til að spila fótbolta,“ segir hinn ellefu ára gamli Noomi. 

Aðrir voru mun reynslumeiri fótboltamenn.

„Í Úkraínu spilaði ég mikið. Allt var gott og svo kom ég til Íslands og nú spila ég fótbolta hérna. Mér líka mjög vel að vera hérna,“ segir Danya sem er sex ára. Hinn ellefu ára gamli Kiril tekur undir. 

„Ég hef spilað fótbolta í átta ár. Ég byrjaði þegar ég var þriggja ára. Ég hafði gaman af fótbolta í Úkraínu. Þar spilaði ég með tveim liðum,“ segir Kiril. 

Þeir hafi eignast fullt af vinum á námskeiðinu.

„Ég á íslenska vini, þeir eru mjög góðir,“ segir Noomi.

Þeir sakni þó Úkraínu.

„Ég sakna ömmu og afa, systur minnar, frænda minna og frænkna. Sumir vinir mínir eru í Úkraínu. Ég vil fara til Úkraínu en mamma segir að við getum ekki farið af því það eru svo margar sprengjur þar,“ segir Kiril. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×