Lagabreytinguna má rekja til kynferðisbrotamáls þar sem 18 ára konu var nauðgað af fimm mönnum þegar nautahlaupið í Pamplóna stóð yfir árið 2016. Mennirnir tóku árásina upp og á myndskeiði mátti sjá konuna liggja kyrra með lokuð augun á meðan þeir nauðguðu henni.
Á neðri dómstigum voru mennirnir aðeins dæmdir fyrir kynferðislega misnotkun, þar sem dómarar féllust á það sjónarmið verjenda þeirra að konan hefði ekki streyst á móti.
Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu árið 2019 að á engum tíma hefði konan veitt samþykki fyrir kynlífinu og ástæða þess að hún hefði ekki barist á móti væri að hún hefði verið óttaslegin og ekki getað komist undan.
Hæstiréttur dæmdi mennina í 15 ára fangelsi.
Málið vakti gríðarlega athygli og reiði. Konur fagna nú hinum nýju lögum og segja þau staðfestingu á því að „aðeins já þýði já“.
Útgangspunktur laganna er að nauðgun er kynlíf án samþykkis og ítrekað er að samþykkið þarf að vera skýrt; það er ekki hægt að bera því við að einstaklingur sem er meðvitundarlítill, til dæmis sökum ölvunar, hafi gefið samþykki né heldur ef viðkomandi var sofandi, svo dæmi séu tekin.