Erlent

Mun venjulegri stjórnmálamaður í Downing stræti

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Eiríkur Bergmann var gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 til að ræða valdaskiptin í Downing stræti.
Eiríkur Bergmann var gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 til að ræða valdaskiptin í Downing stræti. stöð 2/skjáskot

Liz Truss er nýr formaður Íhaldsflokksins og næsti forsætisráðherra Bretlands. Hún lofar skattalækkunum á sama tíma og óðaverðbólga er í landinu og er sökuð um að vera frekar umhugað um fyrirtækjaskatt en heimilin. Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að með valdaskiptunum sé kominn mun venjulegri stjórnmálamaður í Downing stræti.

Eiríkur var gestur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Þar var hann meðal annars spurður út í muninn á Liz Truss og forsætisráðherranum fráfarandi, Boris Johnson.

„Það má kannski segja að hún sé mun venjulegri stjórnmálamaður en Boris Johnson var nokkurn tímann. Það voru sérstakar aðstæður sem báru hann inn í Downing stræti. Þannig hún er miklu líkari þeim leiðtogum sem við höfum áður séð í Íhaldsflokkinn. Við erum því komin á hefðbundnari slóðir í flokknum“

Ljóst er að Truss á ærið verkefni fyrir höndum; óðaverðbólga, Brexit-samningur og hækkandi raforkuverð eru aðkallandi vandamál sem verður að leysa. Í þakkarræðu sinni boðaði Truss skattalækkanir en Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, sakar hana um vera frekar umhugað um skattalækkanir fyrirtækja en heimilin í landinu. 

„Hún tekur við á feykilega erfiðum tíma,“ segir Eiríkur varðandi árferðið. „Það eru mjög margir straumar að koma saman í efnahagslífinu sem að gera það að verkum að veturinn verður augljóslega mjög erfiður. Hún hefur lagt upp með það í kosningabaráttunni að lækka skatta og það fer svolítið illa saman með framrás verðbólgunnar.“

Útlit sé fyrir að verðbólgan í Bretlandi verði sú versta í 40 ár.

„Þannig hún fær enga sérstaka hveitibrauðsdaga eins og nýir forsætisráðherrar fá oft eftir kosningar. Hún kemur ansi bratt inn á þennan völl og verður bara að hlaupa 100 kílómetra hraðar frá lendingu,“ segir Eiríkur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×