Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en þar segir að útreikningarnir byggi á tölum Hagstofunnar um innflutning.
„Tollar hækka innflutningsverð franskra kartaflna um ríflega 46% og útsöluverð til neytenda hækkar í samræmi við það. Félag atvinnurekenda hefur sent fjármálaráðherra erindi og bent á að verndartollur á franskar kartöflur verndi ekkert lengur, eftir að eini innlendi framleiðandi vörunnar hætti framleiðslu. Engin svör hafa fengist við erindinu,“ segir í tilkynningu.
Þar kemur fram að á tímabilinu hafi verið fluttar til landsins franskar kartöflur fyrir 1,7 milljarða. Innflutningurinn hafi verið meiri í krónum talið á síðasta ári heldur en 2020. Þá hafi verið greiddar 300 milljónir króna í tolla. Í ár stefni í frekari aukningu og í lok júlí hafi neytendur þegar staðið undir 237,6 milljóna króna tollgreiðslum.
Verndartollur sem ekkert verndar
„Fullur tollur á franskar kartöflur er 76% og stendur í vegi fyrir innflutningi frá ríkjum sem ekki hafa fríverslunarsamning við Ísland um lægri toll. Tölur Hagstofunnar sýna að innflutningur frá þeim ríkjum er hverfandi. Þannig voru fluttar inn franskar kartöflur frá Bandaríkjunum á tímabilinu fyrir um átta milljónir króna og frá Tyrklandi fyrir um 95 þúsund krónur. Innflutningurinn kemur nánast eingöngu frá ríkjum Evrópusambandsins og Kanada, en samkvæmt fríverslunarsamningum er tollur á franskar kartöflur frá þeim ríkjum „aðeins“ 46%.“
Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, að tölurnar sýni svart á hvítu hve mikið sé í húfi fyrir neytendur, verslun og veitingageirann að fella niður „verndartoll sem ekkert verndar lengur.“
Með þessum orðum á Ólafur við þær fréttir sem bárust í ágúst, að eini íslenski framleiðandi franskra kartafla, Þykkvabæjar, sé hættur framleiðslu á vörunni.
„Tollarnir nema 300-400 milljónum á ári og á tímum þegar matarverð hækkar stöðugt munar um slíkar fjárhæðir,“ er haft eftir Ólafi.
„Besta svarið frá fjármálaráðherranum væri frumvarp um niðurfellingu tollsins strax á haustþinginu.“