Sanderson var grunaður um röð stunguárása ásamt bróður sínum, Damian Sanderson, en Damian fannst látinn með sjáanlega áverka á mánudag.
Fram kemur í frétt kanadíska ríkisútvarpsins að Myles Sanderson hafi verið handtekinn síðdegis í gær nærri bænum Rosthern en hafi stuttu síðar veikst alvarlega og verið úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi.
Stuttu áður en Myles var handtekinn hafði lögreglan í héraðinu gefið út viðvörun vegna tilkynninga um að sést hafi til manns í bifreið með eggvopn á lofti. Síðast hafi sést til ökumannsins í Wakaw, um 90 kílómetra norðaustur af Saskatoon.
Að sögn Rhondu Blackmore, varalögreglustjóra í Saskatchewan, hefur héraðslögreglan óskað eftir því að lögreglan í Saskatoon og rannsókarnefnd viðbragðsaðila (e. Saskatchewan Serious Incident Response Team) rannsaki andlát Myles og aðdraganda þess.
Árásarhrina bræðranna hófst snemma morguns á sunnudag í James Smith Cree samfélaginu en fljótlega fóru tilkynningar að hrannast inn frá þrettán mismunandi stöðum í héraðinu um stunguárásir. Flestar árásanna voru þó framdar í James Smith Cree samfélaginu og bænum Weldon.
Myles á að baki langan brotaferil, sem spannar um tvo áratugi, en hann var aðeins 30 ára gamall. Hann hefur verið dæmdur 59 sinnum og margsinnis verið dæmdur fyrir ofbeldi. Þá átti hann í vandræðum með neyslu áfengis og fíkniefna frá unga aldri.

Flest fórnarlamba bræðranna voru af frumbyggjaættum, eins og þeir sjálfir, en James Smith Cree samfélagið er samfélag kanadískra frumbyggja. Á myndinni hér að ofan má sjá fórnarlömb þeirra sem létust.