Fótbolti

Ekvador heldur HM sætinu en Síle gefst ekki upp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Byron Castillo í einum af 10 A-landsleikjum sínum.
Byron Castillo í einum af 10 A-landsleikjum sínum. EPA-EFE/Jose Jacome / POOL

Knattspyrnusamband Síle neitar að leggja árar í bát og ætlar að áfrýja aftur þó svo að það hafi nú þegar tapað áfrýjun og búið sé að staðfesta að Ekvador haldi sæti sínu á HM sem fram fer í Katar eftir nokkra mánuði.

Þannig er mál með vexti að Síle telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því að hinn 23 ára gamli Byron Castillo, leikmaður Club León í Mexíkó og landsliðsmaður Ekvador sé ekki allur þar sem hann er séður.

Knattspyrnusamband Síle vill meina að Castille sé frá Kólumbíu og hafi enga tenginu við Ekvador. Hann hafi þar með ekki mátt leika með liðinu í undankeppni HM og því eigi að dæma Ekvador úr leik, og gefa Síle sætið.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, telur sig hafa nægar sannanir fyrir því að Castillo sé frá Ekvador og eigi ættir að rekja þangað en hann á að baki 10 A-landsleiki og 15 leiki fyrir yngri landslið Ekvador. Það dugir ekki Síle og nú ætlar knattspyrnusamband landsins með málið fyrir CAF, alþjóðaíþróttadómstólinn í Sviss.

Sem stendur mun Ekvador mæta Katar í opnunarleik HM í Doha, höfuðborg Katar, þann 20. nóvember næstkomandi. Þjóðirnar eru í A-riðli mótsins ásamt Hollandi og Senegal.


Tengdar fréttir

Segja að Ekvador verði hent út af HM vegna falsaðs vegabréfs

Hætt er við því að Ekvador fái ekki að taka þátt á HM karla í fótbolta í Katar í vetur. Síle fái sæti liðsins þar sem ólöglegur leikmaður, með falsað ekvadorskt vegabréf, spilaði með liðinu í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×