Hinn nítján ára Musiala fæddist í Þýskalandi en fluttist ungur til Englands þegar hann var sjö ára og lék með yngri landsliðum Englendinga. En hann valdi svo að spila fyrir Þýskaland og lék sinn fyrsta A-landsleik í 3-0 sigri Þjóðverja á Íslendinga í mars í fyrra.
Musiala og félagar í þýska landsliðinu sækja England heim á Wembley í Þjóðadeildinni í kvöld. Hann segist enn fá skilaboð vegna ákvörðunar sinnar að velja að spila fyrir Þýskaland.
„Sumir vina minna senda mér skilaboð endrum og eins og segja að ég hefði átt að spila fyrir England,“ sagði Musiala.
„Við grínumst en ég held að þeir séu ánægðir með ákvörðun mína. Eflaust eru einhverjir stuðningsmenn Englands ekki ánægðir en ég túlka það þannig að ég sé að gera vel ef fólk er ósátt með að ég hafi ekki valið að spila fyrir landið þeirra.“
Musiala hefur áður spilað fyrir Þýskaland gegn Englandi á Wembley. Hann kom inn á sem varamaður undir lokin í leik Englendinga og Þjóðverja í sextán liða úrslitum á EM í fyrra. England vann 2-0 sigur en leikurinn var sá síðasti hjá Þýskalandi undir stjórn Joachims Löw.
Þýskaland tapaði fyrir Ungverjalandi, 0-1, á föstudaginn og á ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar.