Englandsbanki greip inn í atburðarrásina í gær með tímabundnum kaupum á miklu magni af ríkisskuldabréfum sem snarféllu í verði í vikunni af ótta við enn frekari vaxtahækkanir. Margir lífeyrissjóðir voru við að fara á hausinn eftir að sumir þeirra fóru að selja ríkisskuldabréf sem leiddi til hálfgerðrar brunaútsölu.
Truss segir menn verða að skoða í hvaða stöðu Bretland væri ef ríkisstjórnin hefði ekki gripið til aðgerða.
„Fólk stóð frammi fyrir eldsneytisreikningum, orkureikningum upp á allt að sex þúsund pund. Það voru mjög miklar verðbólguvæntingar og efnahagssamdráttur. Það sem við höfum gert er að grípa til afgerandi aðgerða, í fyrsta lagi til að tryggja að enginn borgi meira en 2.500 pund fyrir dæmigerðan eldsneytisreikning. Þetta tekur gildi á laugardaginn. En við viljum líka létta skattabyrðarnar til að tryggja hagvöxt og hemja verðbólguna,“ sagði forsætisráðherrann í dag.

Eftir aðeins nokkrar vikur í embætti forsætisráðherra mætir Truss hálf hölt til landsfundar Íhaldsflokksins sem hefst á þriðjudag í næstu viku. Margir áhrifamenn í flokknum hafa tilkynnt að þeir ætli ekki að mæta til fundarins.
Þá væri það ekki gott veganesti ef Englandsbanki ákvæði fyrir landsfundinn að hækka stýrivexti enn frekar. Þeir eru nú 2,5 prósent en svartsýnustu spár reikna með að þeir fari yfir sex prósent á næsta ári. Það yrðu hæstu vextir í Bretlandi um áratuga skeið.
„Þetta eru erfiðir tíma. Við horfumst í augu við alþjóðlega efnahagskreppu sem stríð Putins í Úkraínu hrinti af stað. Við tókum réttilega þá ákvörðun að aðstoða fólk að komast í gegnum erfiðan vetur framundan,“ segir Liz Truss.