Það var hinn danski Mads Mensah sem tryggði Flensburg sigur með minnsta mun þegar hann skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndunni og lauk leiknum 35-34 fyrir Flensburg.
Íslendingarnir í liði Magdeburg voru að venju atkvæðamiklir í sóknarleik Magdeburg þar sem Ómar Ingi Magnússon var markahæstur með sjö mörk úr tíu skotum á meðan Gísli Þorgeir Kristjánsson gerði sex mörk úr tíu skotum.
Teitur Örn Einarsson kom við sögu í liði Flensburg en komst ekki á blað.
Á sama tíma í norska handboltanum voru íslensku landsliðsmennirnir Janus Daði Smárson og Sigvaldi Björn Guðjónsson í eldlínunni með toppliði Kolstad sem vann Arendal með fimm marka mun, 30-25.
Janus gerði fimm mörk og Sigvaldi eitt.