Arnar verður aðstoðarþjálfari Allan Foss hjá danska landsliðinu, en Foss var ráðinn til starfa fyrr í dag. Arnar þekkir vel til bæði Foss, sem og danska körfuboltans, enda var hann aðstoðarmaður hans hjá Abyhöj frá Árósum. Þá var Arnar einnig aðstoðarmaður Craig Pedersen, núverandi landsliðsþjálfara Íslands, hjá Svendborg. Arnar tók svo við liðinu af Pedersen og varð svo síðar aðstoðarmaður hans hjá íslenska landsliðinu.
„Arnar hefur mikla reynslu af þjálfun í Danmörku. Hann hefur einnig góða reynslu á alþjóðavettvangi eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, sem hann fór með á EM. Hann er reyndur þjálfari sem bæði ég og leikmennirnir munu njóta góðs af að vinna með,“ sagði Foss um Arnar í samtali við samfélagsmiðla danska körfuknattleikssambandsins.
Störf Arnars fyrir danska landsliðið ættu ekki að koma niður á starfi hans sem aðalþjálfari Stjörnunnar, enda fara æfingar og leikir landsliða fram þegar hlé er gert á deildarkeppnum.