Fótbolti

Costa kennir Conte um | „Aldrei vandamál úr stúkunni“

Atli Arason skrifar
Diego Costa, leikmaður Wolves.
Diego Costa, leikmaður Wolves. Getty Images

Diego Costa, leikmaður Wolves, spilaði í gær á sínum gamla heimavelli, Stamford Bridge, gegn sínum fyrrum liðsfélögum. Costa fékk blíðar móttökur frá stuðningsfólki Chelsea í leiknum.

Í viðtali eftir leikslok þakkaði Costa stuðningsfólki Chelsea og skaut létt á sinn fyrrum knattspyrnustjóra og núverandi knattspyrnustjóra Tottenham, Antonio Conte.

„Ég hef aldrei átt nein vandamál með stuðningsfólkinu í stúkunni, það var knattspyrnustjórinn sem var vandamálið,“ sagði Diego Costa. 

„Það var ekkert sem ég gat gert þá, ég varð bara að fara. Í dag tókst mér að sýna að ég fór ekki frá félaginu í einhverju ósætti við stuðningsfólk Chelsea,“ bætti Costa við en á meðan hann var í sumarfríi árið 2017, nokkrum mánuðum eftir að hafa unnið úrvalsdeildina með Chelsea, fékk Costa SMS skilaboð frá Conte sem tjáði leikmanninum að hann væri ekki lengur hluti af Chelsea og mætti finna sér annað félag. 

Chelsea vann leikinn gegn Wolves í gær 3-0. Costa lék alls í 57 mínútur í endurkomunni en stuðningsfólk Chelsea fagnaði þessum fyrrum framherja liðsins og sungu nafn hans þegar Costa var skipt af velli.

„Það var einstakt. Maður fær á tilfinninguna að maður hafi gert eitthvað rétt á sínum tíma hérna og skilið eftir góðar minningar,“ sagði Diego Costa

Costa lék með Chelsea frá 2014 til 2018 skoraði 59 mörk í 120 leikjum í öllum keppnum en Antonio Conte stýrði Chelsea frá 2016-2018


Tengdar fréttir

Potter áfram ósigraður með Chelsea

Chelsea vann öruggan 3-0 sigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag og er því áfram ósigrað frá því að Graham Potter tók við liðinu 8. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×