Innlent

Gekk ber­serks­gang og reyndi að kveikja í íbúð annars manns

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla var kölluð út vegna tveggja líkamsárása í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla var kölluð út vegna tveggja líkamsárása í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók mann sem hafði valdið töluverðu tjóni í íbúð annars manns og kastað til og skemmt innanstokksmuni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem sagt er frá verkefnum lögreglu í gærkvöldi og í nótt. Ekki segir hvenær nákvæmlega atvikið átti sér stað, en þó kemur fram að þetta hafi verið í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Breiðholt í Reykjavík og Kópavog. 

Segir að hinn handtekni hafi verið undir töluverðum áhrifum vímuefna, en hann hafði sömuleiðis reynt að kveikja í innanstokksmunum en án árangurs. Lögregla handtók manninn og var hann vistaður í fangageymslu.

Reyndi að komast inn í aðrar íbúðir

Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að tilkynnt hafi verið um ofurölvi mann á stigagangi fjölbýlishúss í miðborg Reykjavíkur. Maðurinn bjó sjálfur í húsinu en var ráfandi um stigaganginn og reyndi hann ítrekað að komast inn í aðrar íbúðir. „Að lokum var aðilinn handtekinn vegna ölvunarástands og vistaður í fangaklefa og fengu íbúar í húsinu svefnfrið í kjölfarið,“ segir í dagbók lögreglu.

Lögregla var einnig kölluð út eftir að tilkynnt var um líkamsárás í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu, en þar var árásarmaðurinn farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og tók lögregla skýrslu af þeim sem fyrir árásinni varð. Sömuleiðis var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi.

Ekið á ljósastaur

Þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki á svæði lögreglustöðvar 2 sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ, auk þess að lögregla stöðvaði nokkra ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Loks segir frá því að umferðaróhapp hafi orðið þegar bíl var ekið á ljósastaur og var ökumaður fluttur á bráðamóttöku til skoðunar. Þá kom slökkvilið og hreinsaði upp olíu sem lak frá bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×