Þingið var sett klukkan tíu en það stendur yfir í þrjá daga. Kosningar í forsetaembætti sambandsins fara fram á miðvikudaginn en tveir hafa gefið kost á sér í embættið; Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar.

„Ég geri ráð fyrir að þetta verði bara góð barátta og verði bara vel komið fram vona ég,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Hann tók við forsetaembætti ASÍ eftir að Drífa Snædal sagði af sér í sumar og gefur nú kost á sér í embætti fyrsta varaforseta.
Hann vill ekki gefa upp hvort hann styðji Ragnar eða Ólöfu en segir:
„Ég þekki Ragnar og hef unnið með Ragnari á undanförum árum. Það samstarf hefur gengið vel. Ólöfu þekki ég nú minna, eða þekki hana lítið. En þetta er auðvitað bara verkefni þingsins að vinna með og ákveða,“ segir Kristján Þórður.

Gustað hefur um verkalýðshreyfinguna síðasta rúma árið en segja má að deilur tveggja fylkinga innan ASÍ hafi náð hámarki þegar Drífa sagði af sér.
Kristján vonar að hægt verði að lægja öldurnar því mikilvæg verkefni séu fram undan á þinginu, önnur en framboðsslagurinn.
„Við erum að ræða húsnæðismál og velferð, förum yfir lífeyrismál, efnahagsmál og skatta. Og síðan auðvitað eru kjaramálin og vinnumarkaðurinn stóru þættirnir í því sem við munum ræða,“ segir Kristján Þórður.
Komandi kjaraviðræður eru þar í brennidepli.
„Auðvitað vonast maður til þess að í kjölfar þings að okkur takist að samþætta hópinn svoldið meira og auka samstarfið við gerð kjarasamninganna,“ segir Kristján Þórður.