Sport

Dýralæknirinn í öðru sæti á Girl Power móti í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Þórhallsdóttir lítur vel út þegar stutt er í Evrópumótið.
Kristín Þórhallsdóttir lítur vel út þegar stutt er í Evrópumótið. Vísir/Vilhelm

Kristín Þórhallsdóttir stóð sig frábærlega á Girl Power kraftlyftingamóti í Bordeaux í Frakklandi um helgina.

Kristín sem starfar sem dýralæknir hefur slegið í gegn á undanförnum árum með frábærum árangri í lyftingasalnum en hún keppir í 84 kílóa flokki.

Kristínu var boðið á mótið og hún náði öðru sæti í stigakeppninni og náði persónulegu meti.

Kristín snéri líka heim til Íslands með 1500 evrur í verðlaunafé sem eru yfir 210 þúsund íslenskar krónur.

Árangur Kristínu lofar góðu fyrir komandi Evrópumót. Hún sagði frá því á samfélagsmiðlum sínum að hún hafi æft sérstaklega fyrir þetta mót og leit í raun á þetta sem góðan æfingadag.

Í fyrra varð Kristín fyrsti Íslendingurinn til að ná Evrópumeistaratitli á þrílyftumóti innan kraftlyftinga. Á EM 2021 í klassískum kraftlyftingum fékk hún gull í fjórum greinum, ásamt því að setja fjögur Íslandsmet og tvö Evrópumet.

Á Girl Power kraftlyftingamótinu um helgina var hún sáttust við árangur sinn í réttstöðulyftu þar sem hún fór upp með 242,5 kíló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×