
David Cameron hafði setið í sex ár sem forsætisráðherra þegar hann boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu árið 2016. Hann taldi víst að þjóðin myndi hafna úrsögn en það gerði hún ekki og Cameron sagði af sér.
Theresa May tók við og tókst ekki að ná samkomulagi við Evrópusambandið sem Íhaldsmönnum líkaði og eftir að tillögum hennar hafði verið ítrekað verið hafnað sagði hún af sér eftir þrjú ár og 12 daga í embætti.
Boris Johnson komst til valda undir slagorðinu „engir samningar betri en vondir samningar“ en neyddist til að segja af sér eftir þrjú ár og 45 daga vegna ítrekaðra lyga að þingi og þjóð.

„Ég vil þakka öllum hér og hasta la vista baby,“ svona kvaddi Johnson breska þingið sem leiðtogi og nú segja sumir að hann hefði kannski átt að bæta við öðrum frasa frá Tortímandanum: „I'll be back,“ vegna þess að þrátt fyrir allt hans klúður hafa nokkrir þingmenn og ráðherrar lýst yfir stuðningi við endurkomu hans. Johnson nýtur enn vinsælda í kjördæmi sínu.
„Ég held að það sé mjög góð hugmynd og myndi fagna honum opnum örmum,“ segir Jacquline Clarke íbúi í Uxbridge kjördæmi Johnsons. Og Janine Cash sem einnig býr í kjördæminu segir: „Ég elska hann. Þeir hefðu aldrei átt að losa sig við hann.“
En það gerðu yfir hundrað þingmenn Íhaldsflokksins og 60 ráðherrar og aðstoðarráðherrar sem sögðu af sér úr stjórn hans í sumar til að koma honum frá.

Eftir átta vikna leiðtogakjör vildi meirihluti þingflokksins Rishi Sunak fyrrverandi fjármálaráðherra í leiðtogaembættið en almennir flokksmenn tryggðu Liz Truss að lokum embættið. Fjörtíu og fimm dögum síðar stóð hún síðan fyrir framan forsætisráðherrabústaðinn í gær og sagði þetta:
„Ég get ekki staðið við það umboð sem ég var kosin út á af Íhaldsflokknum. Þar af leiðandi hef ég rætt við konunginn og tilkynnt honum að ég muni segja af mér sem leiðtogi Íhaldsflokksins,“ sagði Truss í stuttu ávarpi til fjölmiðla í gær.

Íhaldsflokkurinn ætlar að ljúka leiðtogakjöri á innan við viku þar sem Sunak og Penny Mordaunt, sem lýsti yfir framboði sínu í dag, þykja líklegust til sigurs. Enginn skyldi hins vegar útiloka refinn Boris Johnson fyrr en allir sauðirnir hafa verið taldir. Stjórnarandstaðan með Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins í broddi fylkingar segir nóg komið og krefst kosninga nú þegar.
„Áhættan felst ekki í þingkosningum. Áhættan felst í að halda þessum glundroða áfram. Við verðum að losna við þessa snúningshurð glundroðans sem býður ekki upp á annað en enn eina tilraunina hjá forystu íhaldsins,“ sagði Starmer í dag.