Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er á leið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 1-2 útisigur gegn Red Bull Sazburg í kvöld.
Gestirnir í Chelsea voru sterkari aðilinn í leiknum og þeir uppskáru mark á 23. mínútu þegar Mateo Kvacic nýtti sér mistök í vörn heimamanna og kom liðinu í forystu.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 0-1 þegar liðin gegnu til búningsherbergja.
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og vildu fá vítaspyrnu aðeins rúmri mínútu eftir hálfleikshléið. Boltinn fór þá klárlega í hönd Mateo Kovacic innan vítateigs, en dómari leiksins dæmdi ekkert og gestirnir sluppu með skrekkinn.
Gestirnir voru þó ekki lengi að jafna sig á því að hafa ekki fengið víti því tveimur mínútum síðar jöfnuðu þeir metin þegar Chukwubuike Adamu batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn.
Það var hins vegar Kai Havertz sem kom gestunum yfir á nýjan leik með glæsilegu marki á 64. mínútu og þar við sat.
Niðurstaðan 1-2 sigur Chelsea og liðið er því búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Chelsea trónir á toppi E-riðils með tíu stig eftir fimm leiki, fjórum stigum meira en FC Salzburg sem situr í öðru sæti. AC Milan og Dinamo Zagreb eru svo jöfn í þriðja og fjórða sæti riðilsins, en þau mætast síðar í kvöld.