Margir biðu spenntir eftir úrslitum kjörs formanns framkvæmdastjórnar á landsfundi Samfylkingarinnar sem fram fór í dag. Þar hafði oddviti Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, sem vann mikinn kosningasigur í sveitarstjórnarkosningum í vor, gefið kost á sér á móti sitjandi formanni og áhrifamanni innan Samfylkingarinnar frá stofnun.
Svo fór að Guðmundur Ari fór með afgerandi sigur af hólmi og tekur því við embætti af Kjartani sem formaður framkvæmdastjórnar
Guðmundur Ari er 34 ára tómstunda- og félagsmálafræðingur og giftur Nönnu Kaaber íþróttafræðingi og á með henni þrjú börn. Hann er oddviti Samfylkingar og óháðra á Seltjarnarnesi sem hlaut rúm 40% í sveitarstjórnarkosningum síðasta vor. Hann hefur setið sem bæjarfulltrúi síðan árið 2014 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2018, að því er segir í tilkynningu um kjör Guðmundar Ara.