Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Katrín hafi í ávarpi sínu rætt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu. Hún sagði það ástand sem stríðið hefur skapað hafa dregið fram mikilvægi samvinnu og samstöðu Norðurlandanna.
„Lýðræði, virðing fyrir mannréttindum og öflugt réttarríki eru þær grunnstoðir sem við byggjum samfélög okkar á og gera okkur betur kleift að mæta ógnum og tryggja velsæld fyrir íbúa. En lýðræðið á víða undir högg að sækja og alræðisöfl virðast vera að eflast,“ sagði forsætisráðherra. Katrín ræddi einnig mikilvægi þess að Norðurlöndin beiti sér fyrir kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi.
Ræddu sterk tengsl og árangursríkt samstarf
Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu fyrr í dag en þeir ræddu meðal annars um loftslagsmál, græn umskipti og stöðuna á vinnu við framtíðarsýn til ársins 2030 um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.
Katrín átti einnig tvíhliða fund með Ulf Kristersson, nýjum forsætisráðherra Svíþjóðar. Þar ræddu þau sterk tengsl og árangursríkt samstarf landanna og mikilvægi norrænnar samvinnu. Forsætisráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í öryggis- og varnarmálum í Evrópu og aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu.