Ívilnunin gildir út árið 2023 en ljóst er að 20.000 bifreiða fjöldamörkunum verður náð um mitt næsta ár.
„Í stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum frá júlí sl. segir að forgangsraða þurfi áherslum og fjármagni í þær aðgerðir sem skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og færa Ísland markvisst í átt að settum markmiðum. Samkvæmt skýrslunni liggja mest tækifæri í orkuskiptum í samgöngum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þar segir einnig að stjórnvöld séu með það í skoðun hvernig stuðningi þeirra vegna orkuskipta í samgöngumálum verði háttað en sérstök athygli vakin á því að þróunin hjá bílaleigum og í þungaflutningum hafi verið nokkuð hægari en í rafvæðingu fólksbifreiða í eigu einstaklinga.
„Það er mikil eftirspurn eftir kaupum á rafbíl en bið eftir slíkum bíl er töluvert löng af sumum tegundum og hefur ástandið í heiminum bæði aukið bið og hækkað verð tímabundið. Þannig að þetta auðvitað aðstoðar við það að fólk geti tekið þessa ákvörðun í meiri ró. Við sáum fram á að kvótinn myndi klárast í júní á næsta ári,“ hefur Morgunblaðið eftir Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.
Hún segir mikilvægt að tryggja innflytjendum svigrúm og fyrirsjáanleika þar sem pantanir þurfi að liggja fyrir með margra mánaða fyrirvara.