Sautján veitingastaðir verða á hinu nýja Kúmen. Sumir veitingastaðanna voru einnig á Stjörnutorgi eða í mathöll Kringlunnar. Þar á meðal eru Sbarro, Te og Kaffi, Serrano, Subway, Kore, Kringlukráin, Finnsson Bistro, Rikki Chan og Local. Domino's á Stjörnutorgi lokaði eftir kvartöld í Kringlunni fyrir tæpum mánuði en á nýju svæði skjóta aðrir upp kollinum; staðir á borð við Ali Baba, Yuzu, Pastagerðina, Takkó og Flatey.
Gert er ráð fyrir því að veitingasvæðið opni á allra næstu dögum.
Baldvina Snælaugsdóttir markaðsstjóri Kringlunnar segir fréttir af lokun Stjörnutorgs hafa vakið upp blendnar tilfinningar hjá mörgum. Sumir hræðist breytingarnar á meðan aðrir séu spenntir: „Þessi hæð verður svo miklu meira en mathöll eða matartorg, þess vegna var nafnið Stjörnutorg ekki lengur við hæfi, af því þetta verður svo miklu meira,“ segir Baldvina.
Breytingarnar á Stjörnutorgi eru liður í stærri breytingum, en á meðal þeirra er fyrirhugað afþreyingarsvæði. Aðspurð vill Baldvina ekki gefa mikið upp um svæðið á þessu stigi málsins en er fullviss um að vinnustaðir og vinahópar muni venja komur sínar á afþreyingarsvæðið. Það verði sem sagt ekki hugsað sem barnagæsla, sem enn verður á sínum stað, og nú í bættu rými.
„Matarhlutinn verður með séropnunartíma, það verður opið til níu öll kvöld. Þannig að það eru að myndast tækifæri til að koma og fá sér að borða áður en maður fer að borða eða þegar það er búið að loka verslunum í Kringlunni. Það eykur fjölbreytnina í vali fyrir leikhúsferðir, upplagt að borða á Kúmen og fara í leikhús eða bíó - eða bara rölta til okkar úr hverfinu,“ segir Baldvina og hvetur alla til að mæta í kveðjuhófið á morgun.