Handbolti

Ótrúlegt mark Ómars vekur athygli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði afar laglegt mark í gær, sem var eitt af ellefu sem hann skoraði í leiknum.
Ómar Ingi Magnússon skoraði afar laglegt mark í gær, sem var eitt af ellefu sem hann skoraði í leiknum. Vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon er í hörkuformi fyrir komandi heimsmeistaramót þar sem Ísland hefur leik eftir rúman mánuð. Glæsimark hans í Meistaradeildinni í gærkvöld hefur vakið athygli.

Ómar Ingi og liðsfélagi hans Gísli Þorgeir Kristjánsson fóru mikinn í sigri liðs þeirra Magdeburgar á dönsku meisturunum GOG í gær. Leikar enduðu 36-34 fyrir þýska liðið sem er með tólf stig í þriðja sæti A-riðils Meistaradeildarinnar en GOG er með sjö stig í því fimmta.

Gísli Þorgeir skoraði átta mörk í leiknum, þar af sex í fyrri hálfleik, en Ómar Ingi skoraði ellefu og lagði fimm upp að auki.

Eitt þeirra marka Ómars kom þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum er hann skrúfaði boltann framhjá markmanni GOG úr afar þröngri stöðu. Markið má sjá að neðan en það hefur vakið verðskuldaða athygli á samfélagsmiðlum.

Ómar hefur verið í hörkuformi að undanförnu og verður að öllum líkindum fastamaður í íslenska landsliðinu sem hefur leik á HM þann 12. janúar. Ísland er þar í erfiðum riðli ásamt Portúgal, Ungverjalandi og Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×