Handbolti

Sjáðu snilldartilþrif Ómars og Gísla í París

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði tólf mörk í París.
Ómar Ingi Magnússon skoraði tólf mörk í París. epa/Aniko Kovacs

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu samtals 21 mark þegar Magdeburg sigraði Paris Saint-Germain á útivelli, 33-37, í Meistaradeild Evrópu í gær.

Sigurinn var afar sterkur hjá Magdeburg en þetta er aðeins fimmti heimaleikurinn sem PSG tapar í Meistaradeildinni í sögu félagsins.

Ómar byrjaði leikinn af fítonskrafti og skoraði fimm af fyrstu sex mörkum Magdeburg. Hann bætti sjö mörkum við eftir þetta og endaði með tólf mörk í aðeins þrettán skotum.

Gísli stóð honum ekki langt að baki og skoraði níu mörk í ellefu skotum. Samtals skoruðu íslensku landsliðsmennirnir því 21 mark í 24 skotum. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá allt það helsta úr leiknum í París í gær.

Gísli og Ómar eru í 3. og 4. sæti yfir markahæstu leikmenn Meistaradeildarinnar. Gísli hefur skorað 62 mörk og er með 79,5 prósent skotnýtingu. Ómar er með 61 mark og 77,2 prósent skotnýtingu.

Magdeburg er í 3. sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með fjórtán stig eftir tíu leiki. PSG er á toppi hans með sextán stig, einnig eftir tíu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×