Innlent

Öskrandi á bíl­skúrs­þaki, sofandi í snjó­skafli og snjó­erjur ná­granna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þau eru ekki öll eins, málin sem berast inn á borð lögreglu.
Þau eru ekki öll eins, málin sem berast inn á borð lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í heldur óvenjulegt útkall í gær þegar hún var kölluð til vegna manns sem var sagður standa uppi á bílskúrsþaki, ber að ofan og öskrandi.

Þegar lögregla kom á vettvang og gaf sig á tal við viðkomandi sagðist hann hins vegar einfaldlega hafa gripið til þess ráðs að öskra til að „losa um spennu“.

Lögreglu barst einnig símtal vegna rifrildis milli nágranna vegna snjómoksturs. Svo virðist sem þeir hafi stundað það síðustu daga að moka snjó á milli garða en fólkinu var gert að leysa málið sín á milli.

Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í Hafnarfirði en þegar lögregla kom á vettvang voru þau yfirstaðin. Minniháttar áverkar voru á aðilum, segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Lögregla var einnig köllu til vegna þjófnaðar í verslun í póstnúmerinu 108. Þar reyndist einstaklingur hafa haft á brott með sér samloku, gosdós og tíu flöskum af kardimommudropum.

Þá var einstakling ekið heim eftir að komið var að honum sofandi í snjóskafli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×