Við förum yfir stöðuna og ræðum við ferðamenn á BSÍ, sem urðu fyrir barðinu á seinkunum, í sérstökum hádegisfréttatíma á Stöð 2 á gamlársdag.
Sjötíu prósent Íslendinga ná endum saman hver mánaðamót þrátt fyrir talsverða verðbólgu og erfiðar markaðsaðstæður. Tæp 30 prósent eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og hluta þeirra tekst það alls ekki og er farinn að safna skuldum. Forseti ASÍ segir stjórnvöld þurfa að opna augun fyrir stöðu fólks.
Benedikt páfi emeritus er látinn, 95 ára að aldri. Nær tíu ár eru síðan hinn fyrrverandi páfi sagði af sér embætti vegna heilsubrests. Við fjöllum um málið í hádegisfréttum.
Þá verðum við í beinni frá undirbúningi Kryddsíldar sem hefst klukkan 14 á Stöð 2. Leiðtogar stjórnmálaflokkanna mæta þar í sett og fara yfir árið sem er að líða og glænýjar niðurstöður úr könnun sem gerð var fyrir fréttastofu.
Þetta og margt fleira í hádegisfréttatíma Stöðvar 2 á slaginu 12.