Samkvæmt fréttatilkynningu frá ÍBV óskaði Marija eftir því um áramótin að losna undan samningi við ÍBV af persónulegum ástæðum. Við þeirri ósk hennar var orðið.
Marija gekk í raðir ÍBV 2021. Á síðasta tímabili lék hún tuttugu leiki með ÍBV í Olís-deildinni og skoraði í þeim 86 mörk. Í úrslitakeppninni lék hún sex leiki og skoraði átta mörk. Í vetur skoraði Marija sextán mörk í níu deildarleikjum fyrir ÍBV.
Marija hefur leikið með serbneska landsliðinu, meðal annars á heimsmeistaramótinu á Spáni fyrir tveimur árum.
Næsti leikur ÍBV, og sá fyrsti á nýju ári, er gegn toppliði Vals á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.