Erlent

Gríðar­mikill eldur í fá­tækra­hverfi í Seúl

Atli Ísleifsson skrifar
Um níu hundruð slökkviliðsmenn tóku þátt í að slökkva eldinn og tók það um fimm tíma.
Um níu hundruð slökkviliðsmenn tóku þátt í að slökkva eldinn og tók það um fimm tíma. AP

Um fimm hundruð íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín eftir að mikill eldur kom upp í fátækrahverfi í suðurkóresku höfuðborginni Seúl fyrr í dag.

Áætlað er að um sextíu heimili hafi eyðilagst í brunanum sem kom upp í Guryong-hverfinu í morgun.

Það tók slökkvilið um fimm klukkutíma að ráða niðurlögum eldsins og voru um níu hundruð slökkviliðsmenn að störfum þar sem meðal annars var notast við þyrlur. Enn sem komið er hafa ekki borist fréttir af manntjóni.

Suðurkóreskir fjölmiðlar lýsa hverfinu sem síðasta fátækrahverfi Seúl-borgar þar sem kofar hafa reistir í miklu návígi hver við annan.

Ekki liggur fyrir hvað olli eldsvoðanum en íbúar í hverfinu hafa áður þurft að þola bæði flóð og bruna. Margir kofanna eru byggðir úr pappa og timbri.

Korea Times segir frá því að frá árinu 2006 hafi sextán eldsvoðar komið upp í Guryong-hverfinu sem er að finna við jaðar Gangnam þar sem í eru margar af dýrustu fasteignum suðurkóresku höfuðborgarinnar.

Slökkviliðsmenn að störfum í Guryong-hverfinu fyrr í dag.AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×