Fótbolti

Úlfarnir halda áfram að styrkja sig fyrir fallbaráttuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Craig Dawson er genginn til liðs við Wolves.
Craig Dawson er genginn til liðs við Wolves. Jack Thomas - WWFC/Wolves via Getty Images

Enski miðvörðurinn Craig Dawson er genginn til liðs við Wolves frá West Ham og skrifar hann undir tveggja og hálfs árs samning við félagið. Dawson er fjórði leikmaðurinn sem Úlfarnir fá til sín í janúar.

Úlfarnir greiða 3,3 milljónir punda fyrir leikmanninn, en það samsvarar tæpum 585 milljónum íslenskra króna. Ásamt Dawson hafa miðjumaðurinn Mario Lemina, vængmaðurinn Pablo Sarabia og framherjinn Matheus Cunha gengið til liðs við félagið í félagsskiptaglugganum.

Dawson er margreyndur leikmaður í ensku úrvalsdeildinni. Þessi 32 ára gamli miðvörður á að baki 246 leiki í deildinni, en Úlfarnir náðu ekki að skrá hann í tæka tíð fyrir leik liðsins gegn Manchester City síðar í dag.

Dawson lék lengi vel með West Bromwich Albion, en hefur leikið undanfarin tvö ár með West Ham eftir að hafa upphaflega komið á láni til liðsins frá Watford. Hann gengur til liðs við Úlfana sem nú sitja í 17. sæti deildarinnar með 17 stig eftir 19 leiki, jafn mörg stig og Bournmouth sem situr í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×