Fótbolti

Marka­súpa þegar Juventus og Atalanta gerðu jafn­tefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ademola Lookman skoraði tvö mörk fyrir Atalanta í kvöld.
Ademola Lookman skoraði tvö mörk fyrir Atalanta í kvöld. Daniele Badolato/Getty Images

Juventus og Atalanta gerðu 3-3 jafntefli í síðasta leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Juventus var nokkuð óvænt komið í toppbaráttu Serie A fyrir ekki svo löngu síðan. Liðið tapaði hins vegar 5-1 fyrir toppliði Napoli og í kjölfarið voru 15 stig dregin af liðinu þar sem talið var að liðið hefði gerst sekt um brot á félagaskiptareglum deildarinnar.

Juventus fór þar með úr því að vera í baráttu um titilinn í að berjast um að komast í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Ekki byrjaði leikur kvöldsins vel þar sem Ademola Lookman kom gestunum í Atalanta yfir á 4. mínútu leiksins. Um miðbik fyrri hálfleiks fékk heimaliðið svo vítaspyrnu sem Ángel Di María skoraði af öryggi úr.

Áður en fyrri hálfleik var lokið kom Arkadiusz Milik heimamönnum í 2-1. Atalanta hafði skorað snemma í fyrri hálfleik en skoraði enn fyrr í þeim síðari. Leikurinn var vart hafinn þegar Joakim Mæhle hafði jafnað metin í 2-2.

Lookman var svo aftur á ferðinni skömmu síðar áður en Danilo jafnaði metin fyrir Juventus á 65. mínútu leiksins. Þó bæði lið hafi gert sitt besta til að tryggja sér stigin þrjú þá fór það svo að leiknum lauk með 3-3 jafntefli.

Eftir leik kvöldsins er Atalanta í 5. sæti með 35 stig, tveimur minna en Roma sem vann Spezia 2-0 fyrr í dag. Juventus er á sama tíma í 9. sæti með 23 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×