Enski boltinn

Topp­liðið kaupir Kiwi­or frá Spezia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jakub Kiwior í baráttunni við Oliver Giroud á HM í Katar.
Jakub Kiwior í baráttunni við Oliver Giroud á HM í Katar. EPA-EFE/Georgi Licovski

Topplið ensku úrvalsdeildarinnar hefur fest kaup á varnarmanninum Jakub Kiwior, samherja Mikaels Egils Ellertssonar hjá Spezia. Sá er pólskur landsliðsmaður og kostar Arsenal 20 milljónir punda, rúmlega þrjá og hálfan milljarð íslenskra króna.

Hinn 22 ára gamli Kiwior hefur skrifað undir fjögurra og hálfs árs samning við Skytturnar með möguleika á árs framlengingu. Arsenal hefur sótt tvo leikmenn í janúarglugganum. Leandro Trossard kom frá Brighton & Hove Albion og nú er Kiwior mættur.

Í aðdraganda HM undir lok síðasta árs tók Vísir saman stjörnur hvers riðils fyrir sig og hvaða leikmenn væri vert að fylgjast með. Kiwior var á þeim lista. Umsögnin um hann sagði:

22 ára miðvörður og liðsfélagi Mikaels Egils Ellertssonar hjá Spezia á Ítalíu. Stóru liðin á Ítalíu eru farin að bera víurnar í Kiwior sem virðist á skömmum tíma hafa stimplað sig inn í byrjunarlið Póllands, þar sem hann leikur með mun reynslumeiri mönnum í hjarta pólsku varnarinnar.

Kiwior hefur leikið 9 A-landsleiki á ferli sínum. Áður en hann gekk í raðir Spezia árið 2021 lék hann með Žilina í Slóvakíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×