Fótbolti

Lazio valtaði yfir meistarana og stökk upp í þriðja sæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lazio vann afar öruggan sigur gegn AC Milan í kvöld.
Lazio vann afar öruggan sigur gegn AC Milan í kvöld. Danilo Di Giovanni/Getty Images

Lazio vann afar öruggan 4-0 sigur er liðið tók á móti Ítalíumeisturum AC Milan í stórleik nítjándu umferðar ítölsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Það tók heimamenn í Lazio aðeins rétt tæpar fjórar mínútur að brjóta ísinn þegar Serbinn Sergej Milinkovic-Savic renndi boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Mattia Zaccagni.

Zaccagni var svo sjálfur á ferðinni á 38. mínútu þegar hann tvöfaldaði forystu Lazio og staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

2-0 varð svo að 3-0 á 67. mínútu þegar Luis Alberto skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum eftir að Pierre Kalulu gerðist brotlegur innan vítateigs. Felipe Anderson rak svo smiðshöggið á sigur Lazio þegar um stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma og niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur heimamanna.

Með sigrinum stökk Lazio úr sjötta sæti og upp í það þriðja. Liðið er nú með 37 stig eftir 19 leiki, einu stigi minna en AC Milan sem situr í öðru sæti. Þá má áætla að leikmenn og stuðningsmenn Napoli fagni einnig sigri Lazio því liðið heldur nú tólf stiga forskoti sínu á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×