Fótbolti

Óvænt tap Juventus á heimavelli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mögnuð ferð Monza til Torinoborgar.
Mögnuð ferð Monza til Torinoborgar. vísir/Getty

Ítalska stórveldið Juventus er í alls kyns vandræðum, innan vallar sem utan, þessa dagana og í dag fékk liðið skell á heimavelli.

Það voru nýliðar Monza sem voru í heimsókn hjá Juventus og munaði aðeins stigi á liðunum í töflunni þegar kom að leik dagsins þar sem Juventus fékk fimmtán mínusstig á dögunum og því í tólfta sæti deildarinnar.

Gestirnir frá Monza voru mun skilvirkari í sínum sóknarleik og skoruðu fyrsta mark sitt í leiknum strax eftir tíu mínútur en við nánari skoðun var markið dæmt af.

Á átjándu mínútu náðu gestirnir forystunni með marki Patrick Ciurria og skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Dany Mota forystuna fyrir gestina. 

Þó leikmenn á borð við Arek Milik og Dusan Vlahovic hafi komið inn af varamannabekk Juventus tókst liðinu ekki að skora og urðu lokatölur því 0-2 fyrir Monza.

Monza lyfti sér þar með upp fyrir Juventus í töflunni, situr í ellefta sæti á meðan Juventus er í þrettánda sæti en þó níu stigum frá fallsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×