Þetta kemur fram á síðu Neytendasamtakanna sem bendir á að samkvæmt Hagstofunni hækki verðbólgan um 0,85 prósent milli mánaða og ársverðbólgan fer úr 9,6 prósentum í 9,9 prósent.
„Aldrei þessu vant nær venjubundin lækkun verðbólgu vegna janúarútsala ekki að slá á hækkunina að neinu ráði. Hækkun verðbólgu í janúar er að mestu til komin vegna hækkana á búsi, bílum og búvörum. Þessi kostnaðarliðir eiga það sameiginlegt að hið opinbera stýrir verði þeirra að verulegu leyti með álögum,“ segir í harðorðri yfirlýsingu á síðu Neytendasamtakanna.
„Enn bólgnar báknið út, neytendur borga brúsann,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í samtali við Vísi spurður um hvort þarna hljóti ekki Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins að bera megin ábyrgð?
Breki segir að því miður virðist það nú vera að ganga eftir sem stjórn Neytendasamtakanna benti á í umsögn um fjárlagafrumvarpið, að krónutöluhækkanir gjalda ríkisins skila sér beint út í verðbólguna.
„Staðan er grafalvarleg og stjórn Neytendasamtakanna skorar á stjórnvöld að ganga á undan með góðu fordæmi og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr verðbólgu.“