Fótbolti

Jói Berg og félagar björguðu stigi í uppbótartíma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í kvöld. Clive Brunskill/Getty Images

Jóhann Breg Guðmundsson og félagar hans í Burnley þurftu svo sannarlega að hafa fyrir stiginu er liðið tók á móti Watford í ensku B-deildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur 1-1, en heimamenn jöfnuðu metin á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Jóhann var í byrjunarliði Burnley í kvöld og lék í um sjötíu mínútur, en liðið hefur verið á miklu flugi og trónir á toppi deildarinnar.

Það voru þó gestirnir í Watford sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar Brasilíumaðurinn Joao Pedro kom liðinu í forystu eftir rétt rúmlega hálftíma leik og staðan var því 0-1 í hálfleik.

Raunar leit út fyrir að þetta yrði eina mark leiksins því staðan var enn óbreytt þegar venjulegum leiktíma lauk. Michael Obafemi reyndist hins vegar hetja heimamanna þegar hann jafnaði metin á 95. mínútu og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.

Burnley situr því enn á toppi ensku B-deildarinnar með 69 stig eftir 31 leik, átta stigum meira en Sheffield United sem situr í öðru sæti en hefur leikið einum leik minna. Watford situr hins vegar í sjötta sæti með 47 stig, en liðið er nú án sigurs í seinustu fimm deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×