Fótbolti

Allir vellir í efstu deildum verða að vera flóðlýstir frá og með 2026

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir er formaður KSÍ en því var hafnað á ársþinginu að lengja kjörtímabil formanns úr tveimur árum í fjögur.
Vanda Sigurgeirsdóttir er formaður KSÍ en því var hafnað á ársþinginu að lengja kjörtímabil formanns úr tveimur árum í fjögur. Vísir/Hulda Margrét

Ársþing KSÍ afgreiddi tillögur og lagabreytingar á þinginu nú síðdegis. Meðal annars var samþykkt að gera kröfu um flóðlýsingu á leikjum í efstu deildum frá árinu 2026.

Ársþing Knattspyrnusamband Íslands fer fram á Ísafirði þessa stundina. Fyrir lágu fjölmargar tillögur og lagabreytingar og hefur verið farið í gegnum þær hverja á fætur annarri.

Tillaga til lagabreytingar um að formaður KSÍ muni sitja í fjögur ár í stað tveggja var hafnað en Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður KSÍ fyrir ári síðan. Þá var það samþykkt að varaformaður Íslensks toppfótbolta geti setið stjórnarfundi KSÍ forfallist formaður ÍTF. 

Einnig lágu fyrir áhugaverðar tillögur um aðstöðumál hjá liðum í efstu deild karla og kvenna. Samþykkt var að krafa yrði gerð um ljósleiðaratengingu hjá liðum í efstu deild karla og kvenna frá og með tímabilinu 20204. 

Á síðasta tímabili kom upp sú staða í Bestu deild karla að byrja þurfti leiki snemma að degi til á virkum dögum þar sem vellirnir sem leikið var á voru ekki búnir flóðlýsingu.

Á ársþinginu lá fyrir tillaga um að allir vellir í tveimur efstu deildum karla og kvenna skyldu búnir flóðljósum og að aðlögunartími yrði gefinn til ársins 2026. Tillagan var samþykkt en ljóst er að hún mun hafa þónokkur áhrif á framkvæmd Íslandsmótsins í framtíðinni.

Tillöguna um flóðlýsingu má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×