Fótbolti

Íslendingarnir völdu Messi en ekki þá bestu

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir höfðu atkvæðisrétt sem landslisðfyrirliðar Íslands. Sara kaus í síðasta sinn því hún er nú hætt í landsliðinu.
Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir höfðu atkvæðisrétt sem landslisðfyrirliðar Íslands. Sara kaus í síðasta sinn því hún er nú hætt í landsliðinu. Samsett/Getty

Fulltrúar Íslands í vali FIFA á besta knattspyrnufólki ársins 2022 voru sammála um hvaða fólk ætti að vera efst á lista, en tilkynnt var um kjörið í gærkvöld.

Lionel Messi og Alexia Putellas urðu efst í kjörinu og hlaut Messi afgerandi kosningu eftir að hafa meðal annars leitt Argentínu að heimsmeistaratitlinum í Katar.

Jafnari kosning var um bestu knattspyrnukonuna og til að mynda kusu fleiri landsliðsþjálfarar ensku landsliðskonuna Beth Mead en Putellas, og allir þrír fulltrúar Íslands í kjörinu völdu Mead.

Það eru þjálfarar og fyrirliðar landsliðanna í heiminum sem eiga atkvæðisrétt í kosningunni, sem og einn blaðamaður í hverju landi.

Arnar Þór Viðarsson, Aron Einar Gunnarsson og Víðir Sigurðsson, umsjónarmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins, tóku þannig þátt í kjörinu á knattspyrnumanni ársins og voru allir með Messi efstan á blaði. Hann varð langefstur í kjörinu en Kylian Mbappé í 2. sæti og Karim Benzema í 3. sæti.

Val Arnars:

  1. Lionel Messi
  2. Kylian Mbappé
  3. Luka Modric

Val Arons:

  1. Lionel Messi
  2. Karim Benzema
  3. Kylian Mbappé

Val Víðis:

  1. Lionel Messi
  2. Kylian Mbappé
  3. Karim Benzema

Í valinu á knattspyrnukonu ársins tók Sara Björk Gunnarsdóttir þátt í síðasta sinn og hún var með Beth Mead efsta, rétt eins og landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson og Víðir Sigurðsson.

Þau höfðu því Mead, sem var lykilmaður í sigri Englands á EM í fyrrasumar, fyrir ofan sigurvegara kjörsins, Alexiu Putellas, sem vann spænsku þrennuna með Barcelona og komst með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Mead endaði í 3. sæti kjörsins og Alex Morgan í 2. sæti.

Raunar komst Putellas hvorki inn á þriggja kvenna listann hjá Söru né Þorsteini, en náði 3. sætinu hjá Víði.

Val Þorsteins:

  1. Beth Mead
  2. Keira Walsh
  3. Alex Morgan

Val Söru:

  1. Beth Mead
  2. Keira Walsh
  3. Wendie Renard

Val Víðis:

  1. Beth Mead
  2. Alexandra Popp
  3. Alexia Putellas



Fleiri fréttir

Sjá meira


×