Í samtali við Vísi staðfesti Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum að karlmaður hafi verið handtekinn í gær þegar hann kom til landsins. Gunnar vildi ekki gefa upp hvaðan maðurinn var að koma en sagði hann vera af erlendu bergi brotinn en hafi verið búsettur hér á landi um tíma.
Aðspurður sagði Gunnar að maðurinn væri með nokkuð langan sakaferil að baki.

Maðurinn er grunaður um að hafa sent sprengjuhótanir á nokkrar stofnanir og vinnustaði í Reykjanesbæ. Hótunin var send í tölvupósti og segir Gunnar að tæknideild lögreglunnar hafi verið fljót að rekja hana til mannsins. Komið hefur fram að lögreglan taldi allt frá upphafi sprengjuhótunina mjög ótrúverðug.
Það skýrist í dag hvort óskað verði eftir gæsluvarðhaldi yfir manninum.