Fótbolti

Frammistaðan í kvöld sú versta á árinu: „Ég skammast mín“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag var ómyrkur í máli eftir vandræðalegt tap Manchester United gegn Liverpool í kvöld.
Erik ten Hag var ómyrkur í máli eftir vandræðalegt tap Manchester United gegn Liverpool í kvöld. John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var vægast sagt súr eftir heimsókn liðsins á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Manchester United mátti þola sitt stærsta tap frá því að enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar, lokatölur 7-0 Liverpool í vil.

„Þetta var virkilega slæm frammistaða, sú versta á árinu,“ sagði Ten Hag að leik loknum.

„Við töpuðum leiknum í lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni, en þú verður að halda haus og við gerðum það ekki.“

„Þetta snýst allt um að sýna aga, sem við gerðum ekki. Það er þá sem maður fer að fá á sig mörk. Þetta var virkilega ófagmannleg frammistaða og algjör óþrafi. Við verðum að vinna vinnuna okkar, en við gerðum það ekki.“

Þá vildi Hollendingurinn einnig biðja þá stuðningsmenn United sem gerðu sér ferð á Anfield í kvöld afsökunar.

„Þetta var erfitt fyrir þá og við verðum að þakka þeim fyrir. Ég áfellist þá ekki fyrir að yfirgefa völlinn snemma því þetta var virkilega slæm frammistaða. Ég skammast mín fyrir hönd stuðningsmannanna,“ sagði Hollendingurinn að lokum.


Tengdar fréttir

Algjör niðurlæging United gegn erkifjendunum

Liverpool vann sannkallaðan risasigur er liðið tók á móti erkifjendum sínum í Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Eftir fjörugan fyrri hálfleik þar sem aðeins eitt mark leit dagsins ljós lék Liverpool á alls oddi í síðari hálfleik og vann að lokum 7-0 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×