Handbolti

„Byrjuðum ekki nægi­lega vel“

Hinrik Wöhler skrifar
Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka.
Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka. Vísir/Diego

Eyjakonur sigruðu Hauka með sjö mörkum, 30-23, í Olís-deild kvenna á Ásvöllum í kvöld. Díana Guðjónsdóttir, sem er nýtekin við aðalþjálfarastöðunni eftir að Ragnar Hermannsson lét af störfum, var svekkt með tapið en leit þó björtum augum á framhaldið.

„Við náttúrulega byrjuðum ekki nægilega vel og staðan var orðin 5-1 eftir rúmlega fjórar mínútur. Síðan náðum við að stilla okkur af og fórum að vinna eftir reglunum sem var búið að setja varnarlega. Þegar við hættum því og fórum of framarlega þá misstum við þær fram úr okkur,“ sagði Díana eftir leikinn í kvöld.

Eftir jafnan fyrri hálfleik stungu Eyjakonur af undir miðbik síðari hálfleiks. Það hægðist talsvert á sóknarleik Hauka í síðari hálfleik eftir fína frammistöðu í þeim fyrri.

„Ég myndi nú segja að það var skotnýtingin og það vantaði meiri áræðni, það er bara hlutur sem við lögum og það er ekkert sem ég hef áhyggjur af. Það sem ég hef áhyggjur af núna er að við brennum af fjórum vítum í dag og fimm í síðasta leik. Sóknarleikurinn á köflum var mjög góður en það vantaði kannski upp á skotnýtinguna, hún var ekki nægilega góð.“

Eftir að Ragnar Hermannsson lét af störfum eftir síðasta leik sem þjálfari Hauka var tilkynnt að Díana Guðjónsdóttir og Halldór Ingólfsson muni stýra liðinu út tímabilið.

„Það leggst bara vel í mig, ég er náttúrulega búin að þjálfa lengi, en ég ætla ekki að segja ykkur hversu lengi. Mér líst vel á þetta og ætla að gera mitt besta,“ segir Díana glettin.

Næsti leikur Hauka er á móti sterku liði Vals í undanúrslitum Powerade-bikarsins.

„Auðvitað er þetta erfiður leikur á móti Val, það er engin spurning. Við förum klárlega í bikarinn til að njóta og hafa gaman. Það eru forréttindi að vera í höllinni og leikirnir á móti Val hafa oft verið hörkuleikir. Við skoðum þennan leik vel og stillum saman strengi, þetta er allt á góðri leið,“ sagði Díana í lokin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×