Fyrir leik kvöldsins sat Fredericia í sjöunda sæti deildarinnar með 24 stig og Ribe-Esbjerg í því níunda með 20 stig þegar þrjár umferðir voru eftir af deildarkeppninni. Það var því ljóst að sigur myndi tryggja það að Fredericia gæti ekki lent neðar en í áttunda sæti deildarinnar, en átta efstu liðin vinna sér inn sæti í úrslitakeppninni.
Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik var staðan jöfn, 16-16, en heimamenn í Fredericia náðu tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik og sigldu að lokum heim mikilvægum fjögurra marka sigri, 33-29.
Einar Þorsteinn Ólafsson komst ekki á blað fyrir Fredericia í kvöld, en Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk fyrir Ribe-Esbjerg og Ágúst Elí Björgvinsson varði ellefu bolta fyrir liðið, ásamt því að skora eitt mark.
Fredericia situr í sjöunda sæti deildarinnar með 26 stig þegar liðið á tvo leiki eftir af deildarkeppninni, sex stigum fyrir ofan Ribe-Esbjerg sem situr enn í níunda sæti.