Fótbolti

Hlé verði gert á leikjum svo leikmenn geti brotið föstu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah er einn þeirra leikmanna sem fagnar Ramadan.
Mohamed Salah er einn þeirra leikmanna sem fagnar Ramadan. Angel Martinez/Getty Images

Dómarar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa fengið tilmæli um að reyna að gera hlé á kvöldleikjum deildarinnar næsta mánuðinn svo þeir leikmenn sem fagna Ramadan geti brotið föstu.

Múslimar fagna Ramadan næsta mánuðinn, en þá fasta múslimar frá sólarupprás að sólarlagi. Mohamed Salah, Riyad Mahrez og N'Golo Kante eru meðal leikmanna í ensku úrvalsdeildinni sem eru múslimstrúar og munu þeir því ekki neyta matar né drykkjar á meðan sólin er á lofti. 

Þessir leikmenn munu því þurfa að brjóta föstuna þegar sólin sest og mun það hafa áhrif á einhverja kvöldleiki á Englandi næsta mánuðinn.

Dómarar á Englandi hafa því fengið þau fyrirmæli að reyna að komast að því hvaða leikmenn það eru sem gætu þurft að taka sér stutt hlé frá leiknum og ákvarða gróflega hvenær sé hentugt að stöðva leikinn um stund.

Ramadan er níundi mánuður íslamska dagatalsins og er helgaður föstu, bænum, sjálfsskoðun og samfélagi. Í ár stendur Ramadan frá miðvikudagskvöldinu 22. mars til föstudagskvöldsins 21. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×