Þetta sagði vakthafandi ofanflóðasérfræðingur Veðurstofunnar í samtali við fréttastofu á sjöunda tímanum í morgun. Hann segir þó von á úrkomubakka á Austfjörðum annað kvöld.
Nokkur snjóflóð féllu á Austfjörðum í gær – þar af þrjú í Neskaupstað en einnig á Reyðarfirði, í Mjóafirði og á Seyðisfirði. Óvissustig er í gildi á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu og hættustig í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði.
Ákveðið var að fara af neyðarstigi Almannavarna og niður á hættustig á sjöunda tímanum í gær. Þetta var ákveðið eftir að ljóst var að tökum hafði verið náð á ástandinu og að enginn væri talinn í bráðri hættu.

Ekkert skólahald verður í leik- og grunnskólum í Neskaupsstað þar sem snjóflóðin féllu í gærmorgun og heldur ekki á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Auk þess mun ekkert skólahald verða í Verkmenntaskóla Austurlands heldur.
Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að á öllum þessum stöðum sé þungfært víða á götum og göngustígum auk þess sem rýming er enn í gildi á Eskifirði og í Neskaupstað og gildir hún í það minnsta fram eftir morgni. Staðan verður tekin á nýjan leik í morgunsárið og gefin út tilkynning upp úr klukkan 11.