Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að veðurspáin hefði gengið eftir að mestu, að mati Veðurstofunnar, og hefur veruleg ofankoma verið á Austfjörðum frá því í nótt, slydda eða rigning á láglendi en snjókoma til fjalla.
Í Neskaupstað hafa lítil snjóflóð verið að falla á varnargarða ofan byggðarinnar sem og eitt stórt krapaflóð síðdegis, en það stöðvaðist einnig á varnargarði. Þá hafa snjóflóð verið að falla úr Hólmatindi við Eskifjörð.

Að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns á Austurlandi, er ekki vitað til þess að snjóflóð hafi valdið óskunda en hann segir að staðan sé viðkvæm.
Almannavarnir hafa í dag gripið til aukinna rýminga úr húsum og hverfum, til viðbótar við þær sem þegar voru í gildi á Seyðisfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Fleiri hús hafa verið rýmd bæði í Neskaupstað og á Eskifirði. Þá hafa bæst við rýmingar í Mjóafirði, á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði og voru íbúar beðnir um að gefa sig fram við fjöldahjálparstöðvar.

Samkvæmt færðarkorti Vegagerðarinnar voru allar leiðir til sjávarbyggða á fjörðunum lokaðar í dag, allt frá Seyðisfirði í norðri til Breiðdalsvíkur í suðri. Nokkrar leiðir voru lokaðar vegna snjóflóðahættu; leiðirnar um Fagradal, um Hólmaháls, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, og um Fannardal í Norðfirði.
Í kvöld var vegurinn milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur þó opnaður. Einnig vegurinn um Hólmaháls en tekið fram að staðan yrði endurmetin og mögulega gæti komið til lokunar þar seinna í kvöld.

Appelsínugul viðvörun er áfram í gildi fram á nótt en þá tekur við gul viðvörun fram á næsta kvöld.
Veðurstofan varar sérstaklega við því að krapaflóð geti fallið þegar snjórinn blotnar og mettast. Er fólk hvatt til að sýna aðgæslu nærri farvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: