Fótbolti

Saliba ekki með og Zinchenko tæpur

Hjörvar Ólafsson skrifar
Mikel Arteta segir ekki víst hvort Oleksandr Zinchenko verði leikfær þegar Arsenal mætir Southampton á morgun. 
Mikel Arteta segir ekki víst hvort Oleksandr Zinchenko verði leikfær þegar Arsenal mætir Southampton á morgun.  Vísir/Getty

Arsenal verður áfram án William Saliba þegar liðið mætir Southampton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta karla á Emirates á morgun. Þá er ólíklegt að Oleksandr Zinchenko verði með þegar topplið deildarinnar leiðir saman hesta sína við botnliðið. 

Saliba varð fyrir bakmeiðslum í leik Arsenal gegn Sporting um miðjan mars og hefur misst af síðustu fjórum leikjum Skyttanna vegna þeirra meiðsla. 

Arteta segir ganga hægt hjá Saliba að fá bót meina sinna og mátti lesa á orðum hans á blaðamannafundinum í dag að hæpið væri að Saliba verði orðinn klár í tæka tíð fyrir stórleik Arsenal og Manchester City um þar næstu helgi. 

Zinchenko er hins vegar nær því að komast inn á völlinn en hann er er að glíma við vöðvameiðsli sem héldu honum utan vallar þegar Arsenal gerði 2-2 jafntefli við West Ham United í deildinni um síðustu helgi. 

Meiðsli Zinchenko eru ekki jafn alvarleg og hjá Saliba en búast má við því að hann hvíli gegn Southampton og mæti svo til leiks í toppslagnum á móti Manchester City. 

Arsenal hefur fjögurra stiga forskot á Manchester City en toppliðið hefur leikið 31 leik á meðan ríkjandi meistararnir hafa spilað 30 leiki.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×