Hingað til hefur verið miðað við að einn af hverjum tíu glími með lesblindu og benda niðurstöðurnar til þess að þeir séu mun fleiri. Þetta er í fyrsta sinn sem aldurshópurinn átján til tuttugu og fjögurra ára er rannsakaður og segir Ásdís stöðu þeirra sem eru með lesblindu mjög ólíka þeirra sem ekki eru með lesblindu. Áhugavert sé að sjá muninn á hópunum.
„Þau sem eru með lesblindu og greindust með lesblindu eftir tíu ára aldur eru líklegri til að vera hvorki í námi né með vinnu heldur en þau sem að ekki eru með lesblindu greiningu og þau sem greindust fyrir tíu ára aldur. Það er svona ein meginniðurstaða í könnuninni að þau sem greinast tiltölulega seint með lesblindu, eftir tíu ára aldur, staða þeirra er að mörgu leyti verri en þeirra sem greindust fyrr,“ segir Ásdís.
Það gefi vísbendingu um að mikilvægt sé að grípa börn með lesblindu snemma og veita þeim viðunandi stuðning við hæfi upp á framtíðarmöguleika þeirra í námi og starfi.
Ásdís segir markmið rannsóknarinnar hafa verið að skoða ungt fólk sem er að fóta sig í námi og starfi. Niðurstöðurnar séu merkilegar, til að mynda séu þeir sem eru með lesblindu mun ólíklegri til að vera í háskólanámi.
„Þannig þetta gefur vísbendingar um að þau sem eru með lesblindu fari síður í nám. Við spurðum líka út í kvíðan, þau sem eru að greinast með lesblindu eftir tíu ára aldurinn þau eru að upplifa meiri kvíða,“ segir Ásdís.
Hún bætir við að viðtöl hafi verið tekin við ungmenni sem tóku þátt í rannsókninni. Þau hafi lýst kvíða sem þau höfðu upplifað frá unga aldri.
Ásdís segir kvíðan hafa tengst náminu og að þurfa standa upp fyrir framan bekkinn og lesa upphátt. Mögulega skýri það að hluta hvers vegna ungmenni með lesblindu sæki síður í áframhaldandi nám. Ásdís vonar að niðurstöðurnar auki vitund fólks á vandamálinu og að úrbætur verði gerðar fyrir lesblinda. Til standi að rannsaka lesblindu enn frekar líkt og fólk á vinnumarkaði með lesblindu.