Fasteignaverð hækkaði mest á Íslandi af OECD löndunum frá 2010
Fasteignaverð hefur hækkað mest hér á landi frá árinu 2010 miðað við önnur iðnríki. Mun meira en víða í nágrannalöndunum. Aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins bendir á að íbúafjölgun og hagvöxtur hafi verið mun meiri hérlendis en í ríkjum Evrópusambandsins á tímabilinu. „Á sama tíma hefur framboð nýrra íbúða verið of lítið hér á landi,“ segir hann. Aftur á móti þegar litið er til hækkunar frá árinu 2006 er sagan önnur. Þá skerum við okkur ekki úr nágrannalöndum okkar. Hagfræðingur Reykjavík Economics rekur þessa miklu hækkun frá árinu 2010 meðal annars til þess að fasteignaverð hérlendis lækkaði „skarpt“ í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar.