Fótbolti

Kjartan Henry: Nánast draumi líkast

Dagur Lárusson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason skoraði tvö fyrir FH í dag.
Kjartan Henry Finnbogason skoraði tvö fyrir FH í dag. Vísir/Hulda Margrét

Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður FH, var að vonum ánægður eftir 3-0 sigur liðsins á KR í dag þar sem hann skoraði tvö mörk.

„Auðvitað þegar maður lokaði augunum í gærkvöldi þá sá maður leikinn fyrir sér gerast nokkurn veginn svona,” byrjaði Kjartan Henry á að segja eftir leik.

„Þetta var eiginlega draumi líkast en fyrst fremst var gaman að vinna leikinn en auðvitað gaman að skora líka. Ég hef nú ekki skorað mörg svona mörk á ferlinum og hvað þá á þessum aldri,” hélt Kjartan Henry áfram.

Kjartan Henry vildi meina að uppleggið fyrir leikinn hafi gengið upp.

„Mér fannst við spila þennan leik mjög vel, ég veit að vallaraðstæður eru ekkert ákjósanlegar en það er bara eins og það er. Mér fannst við þekkja völlinn svolítið eftir leikinn gegn Stjörnunni og við gátum spilað honum vel á milli okkar þannig þetta var ekkert bara hálofta fótbolti. Við héldum boltanum vel innan liðsins og skiptum honum vel á milli kanta.”

Kjartan talaði síðan einnig um varnarleikinn.

„Fótbolti snýst auðvitað líka um það að verjast og við fórum vel yfir leikinn gegn Fylki og við vorum ekki ánægðir með þann leik, við vorum svolítið sofandi þar, en það var ekki raunin í dag og því fengum við stigin þrjú,” endaði Kjartan Henry á að segja eftir leik.


Tengdar fréttir

Leik lokið: FH - KR 3-0 | Ósigrandi á Miðvellinum

FH valtaði fyrir KR á gulum Miðvellinum í 4. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Kjartan Henry Finnbogason reyndist sínum gömlu félögum en skoraði tvö mörk. Það fyrra einkar glæsileg bakfallsspyrna og það síðara einföld afgreiðsla af stuttu færi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×